Archive for November 7, 2010

Opna gögn stjórnsýslunnar

Opin gögn stjórnsýslunnar eru forsenda fyrir því að hægt sé að opna stjórnsýsluna sjálfa. Hafi þeir sem vilja fylgjast með stjórnsýslunni ekki aðgang að gögnum um starfsemi hennar eru þeir alveg vopnlausir.

Þannig er skýlaus krafan um að stjórnsýslan gefi upp gögn um rekstur sinn, bæði áætlanir og efndir, og þá veit þjóðin hvort stjórnsýslan er að gera það sem ætlast er til af henni og efna það. Þá má draga fram tilvik þar sem útkoman er ekki eins og við áttum von á og líka þau sem sýna fram á hvar vel gekk.

Þetta er hlutverk fjórða valdsins í lýðræðissamfélagi. Fjórða valdið á að veita hinum þremur aðhald með því að fylgjast með því hvað er að gerast þar. Fjórða valdið á að fjalla um hin völdin þrjú og “gefa skýrslu” til almennings um hvernig þau standa sig. Fjölmiðlar eiga að fara með þetta vald.

Við getum ekki sagt að á Íslandi sé þetta raunin. Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA) fjallar um að upp á þetta hafi vantað í aðdragandanum að hruninu (sem dæmi í Siðfræðikaflanum, sjá líka ágæta grein í Grapewine). Fjölmiðlar virðast, margir hverjir, halda að blaðamennska felist í að birta hráar fréttatilkynningar. Svo það er ljóst að við höfum ekki haft sterkt fjórða valdið til að veita aðhald. Síðan hrunið varð hafa fjölmiðlar enn frekar dregið saman starfsemi sína og það er varla hægt að ætlast til meira aðhalds frá þeim nú.

Eitt sinn á Thomas Jefferson, þriðji forseti Bandaríkjanna, að hafa sagt:

Were it left to me to decide whether we should have a government without newspapers, or newspapers without a government, I should not hesitate a moment to prefer the latter.

(Snörun: Þyrfti ég að velja hvort við hefðum stjórnvöld með dagblöðum eða dagblöð án stjórnvalda, myndi ég hiklaust kjósa það síðarnefnda.)

Þegar þetta fyrirkomulag milli stjórnvalda og fjölmiðla var skilgreint voru dagblöð (þess tíma fjölmiðlar) þau einu sem höfðu tækifæri til að nálgast upplýsingar, elta uppi og miðla áfram. Þetta hefur breyst. Það er nú á allra færi að sækja og birta upplýsingar. Með veikum fjölmiðlum verður þjóðin að taka sína ábyrgð á fjórða valdinu og til þess þarf hún betri aðgengi að gögnum.

En hún þarf líka viljann. Fyrir hrun mátti heyra marga Íslendinga tala um hvað þeim leiddist pólítík og þeir vildu helst sem minnst af henni vita. Þess vegna kom staðan á þjóðfélaginu við hrun mörgum í opna skjöldu. Síðan þá hefur fólk sýnt raunverulegan vilja til að setja sig inn í málin og taka þátt (eins og fjöldi frambjóðenda á stjórnlagaþing er gott dæmi um!). Ég held því að það sé mikilvægt að halda áfram að virkja almenning í aðhald við stjórnvöld og byggja upp sterkara fjórða vald.

Í skýrslu nefndar Alþingis um viðbrögð við skýrslu RNA var rætt um að skerpa þyrfti upplýsingarétt almennings. Af þessu tilefni hefur verið lagt fyrir Alþingi frumvarp um aukin og endurbætt Upplýsingarlög (50/1996). Í lögunum sjálfum er tilgangur þeirra tilgreindur og rímar hann vel við það sem ég legg áherslu á hér að ofan. Að auki hafa lögin verið útvíkkuð til að taka til fleiri greinar stjórnsýslunnar en áður svo og einkaaðila séu þeir í störfum fyrir opinbera aðila eða í meira en 75% eigu þeirra.

Þetta er mikið fagnaðarefni en mér finnst ekki nógu langt gengið. Frumvarpið er uppfærð útgáfa af upprunalegu lögunum og það takmarkar þau á mikilvægan hátt. Í fyrsta lagi eru lögin skrifuð til að tryggja almenningi rétt á að biðja um upplýsingar. Stór hluti laganna fer í að tilgreina hvernig mál eru lögð fram, afgreiðslutíma, ljósritunarkosntnað (!) og svo framvegis*. Árið 1996 þá var þetta eðilegt málsmeðferð. Árið 2010 er hún að mörgu leyti úreld (20. aldar vinnubrögð á 21. öldinni). Frumvarpið tilgreinir að vísu að stjórnvöldi eigi að leitast við að birta upplýsingar á vefsíðum en þar finnst mér ekki nógu langt gengið. Í athugasemdum er talað um að ekki hafi verið gengið lengra við að leggja skyldur á herðar stjórnsýslunnar vegna þess að það sé tæknilega erfitt og síðan geti verið óheyrilega flókið að skrifa lög sem geti tekið tillit til persónuverndar, þagnarskyldu, þjóðhagslegra hagsmuna o.fl. við gerð almennra laga eins og þetta. Þá komum við að því sem takmarkar þessi lög að öðru lagi.

Lögin fjalla of almennt um ‘gögn’ og því verður krafan um birtingu þeirra ekki og aðgengi nógu skýr. Til að skerpa á þessu mætt t.d. skipta umfjöllun upp eftir því hvort að gögnin eru persónugreinanleg eða ekki. Þá er auðveldara að fjalla um hvað stjórnvöld mega og mega ekki birta og hvernig. Síðan má ræða aðgengi að gögn einstaklings um hann sjálfan og hvernig þau má birta. Eða það mætti jafnvel skoða að skipta lögunum eftir stjórnvaldi (alþingi, forseti, dómstólar, ríkisstjórn/ráðuneyti, ríkisfyrirtæki…) og fjalla sérstaklega um þau. Að lágmarki ætti að setja stjórnvöldum markmið um hvað á að vera birt og hvernig (jafnvel hvenær). Byrja almennt, en setja stefnuna. Ekki setja það undir “mat stjórnvalda” (eins og það er orðað í athugasemdum) hvað á að birta og hvað ekki. Ef tilgangur laganna á að vera að byggja upp traust þá er þetta ekki til þess fallið. Við getum verið miklu kröfuharðari til stjórnvalda hvað þetta varðar. Ef þau taka upp á sína arma meiri upplýsingatækni þá gerir það ekki einungis birtingu auðveldari heldur verður stjórnsýslan sjálf mun skilvirkari og þar af leiðandi ódýrari til lengdar. Mér finnst frumvarpið vera örlítið litað af hræðslu við upplýsingatækni og ekki nógu mikilli þekkingu á því hvað hún er öflug.

En gott skref og í rétta átt. Meira svona. Og að sjálfsögðu ætti að tryggja þennan upplýsingarétt í stjórnarskránni þannig hann megi ekki afmá með einu Alþingi.

:)
MD

*Til dæmis er tilgreint að ef að gögn eru til á tölvutæku formi þá geti sá sem biður um gögnin ráðið því hvort hann vill fá þau á því formi eða útprentuð. Það er bæði dýrt og óhentugt að láta beiðanda eftir þetta frelsi. Hann getur prentað út gögnin á sínum tíma og fyrir sinn kostnað þegar hann hefur fengið þau afhent á tölvutæku formi sem hann getur notað.