Bentu á þann sem að þér þykir bestur

Kosningum til stjórnlagaþings 2011 lýkur á laugardaginn og nú ríður á að sem flestir taki þátt. Stjórnlagaþing þarf skýrt umboð um að það starfi fyrir hönd þjóðarinnar og því verður þjóðin að mæta á kjörstað og kjósa.

Það eru þeir sem sjá sér hag í því að letja fólk til þátttöku með það að augnamiði að ekki náist árangur af stjórnlagaþingi. Það er undir okkur komið að þetta takist ekki og mæta á kjörstað og standa keika að baki þeim þingmönnum sem veljast á þingið.

Þurfir þú fleiri vitnanna við þá er gott að renna yfir vef Hagsmunasamtaka frambjóðenda sem hafa það að markmiði að hvetja alla til að kjósa.

Gott að hafa í huga:

  1. Það er nóg að kjósa einn. Það má kjósa allt að 25.
  2. Taka með sér ‘tossaseðil’. Þá er um að gera að nýta sér heimsenda kjörseðilinn eða prenta út af Kosning.is
  3. Bentu á þann sem að þér þykir bestur: Þú setur þann sem þú vilt helst sjá á stjórnlagaþingi efst. Númer tvö er sá sem þú gætir hugsað þér næst. Og svo framvegis.
  4. Ef þú ert ákveðin(n) þá er um að gera að ganga í málið og kjósa, utankjörstaðaratkvæðagreiðsla er hafin.
  5. Sértu á Reykjarvíkursvæðinu þá er Laugardalshöllin opin frá 10-22 og þar geta allir kosið, líka þeir sem ekki eiga lögheimili í Reykjavík.

Skrifum góða stjórnarskrá, Ísland á það skilið.

:)
Magga Dóra

Advertisements

Stefnumót með frambjóðendum

Á næstunni verður víða hægt að komast í tæri við frambjóðendur á stjórnlagaþing.

Kaffiboð með kvenframbjóðendum verður haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur á sunnudaginn milli 14 og 17 í boði KRFÍ.

Síðan er ‘opinn hljóðnemi’ á Café Haiti sunnudag til fimmtudags þar sem hver frambjóðandi fær 20 mínútur við hljóðnemann til að fjalla um sín hugðarefni og taka við spurningum úr sal.

Hvet ykkur eindregið til að mæta!
:)
MD

Aðkoma þjóðar

Stundum er þetta nefnt þátttökulýðræði eða beint lýðræði og hugsa þá margir til þjóðaratkvæðagreiðslna um ákveðin málefni. Þessi heimild til að skjóta máli til þjóðar getur verið mikilvægur öryggisventill til að halda valdajafnvægi. Það er mjög áhugavert að skoða hvernig ýmsar Evrópuþjóðir nýta sér þetta á ólíkan hátt. Allt frá Sviss sem er með ríka hefð fyrir þátttöku þjóðar í löggjafarvaldi yfir til Þýskalands þar sem ekki er gert ráð fyrir þjóðaratkvæðum nema í mjög takmörkuðum málaflokkum.

Það er mikilvægt að íslenska stjórnarskráin tilgreini það skýrt hvenær og hvernig skal efnt til þjófðaratkvæðagreiðslu. Skilgreina hvort þurfi meirihluta þátttöku (aukinn?), hvort þær séu leiðbeinandi eða bindandi og fleira.

Það er hinsvegar ekki nægjanlegt. Það að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til málefnis þegar þegar búið er að setja þau upp í Já/Nei samhengi atkvæðagreiðslu takmarkar alltof mikið valdið sem þjóðin fær. Sá sem stillir upp spurningunni hefur allt valdið.

Það er því ekki síður mikilvægt hér að þjóðin geti komið með athugasemdir fyrr, sem dæmi lesið yfir frumvörp og gefið álit. Það eru margir sérfræðingar sem glaðir myndu vilja hafa áhrif á löggjöf á sín sérsviði og sjaldnast eru tilkallaðir aðrir sérfræðingar en starfa innan ákveðinn faghópa eða þrýstihópa.

Ef að það á að spyrja þjóðarinnar spurningar sem hefur bara já/nei svar þá verður þjóðina að koma að því að semja spurninguna og stilla upp valkostunum. Við vitum nefninlega að heimurinn er ekki bara svart/hvítur.

Kerfisgreining

Undanfarin ár hef ég unnið sem kerfisgreininandi við hugbúnaðargerð. Sem kerfisgreininandi er ég iðulega í því hlutverki að setja mig í spor annarra og skilja þeirra þarfir og kröfur til kerfisins sem verið er að smíða. Mitt starf er síðan að taka þessar þarfir og kröfur og vinna þær áfram þannig að allir skilji hvað á að gera. Í því ferli þarf oft að gera málamiðlanir milli þarfa/krafna ólíkra aðila sem að kerfinu koma. Stundum verður að leita málamyndanna og stundum þarf að forgangsraða ákveðnum kröfum fram yfir aðrar.

Meðan á þessu ferli stendur er mikilvægt að hugsa um hvernig kerfi kröfurnar í heild sinni eru að teikna upp. Oft eru kröfur í mótsögn við hvor aðra og kerfið getur ekki gengið upp með þær allar innanborðs þó að hver og ein sé mikilvæg og skiljanleg krafa. Þá þarf að stilla saman kröfurnar (og þá iðulega kröfuhafana) til að sú heildarmynd fáist sem að stefnt er að.

Svona langar mig að hugsa vinnu Stjórnlagaþings. Í upphafi fáum við gríðarlega mikið af gögnum með hugmyndum víða að um hvaða breytingar skuli gera á stjórnarskránni. Þetta eru hugmyndir þingmanna sjálfra og annarra frambjóðenda, frá Þjóðfundi, frá álitsgjöfum þingsins, frá undirbúningsnefnd stjórnlaga þings ofl. Hugmyndirnar verða of margar til að hægt er að vinna þær allar á þessu þingi. Mikið af þessum gögnum innihalda kröfur sem eru í mótsögn. Þess vegna er mikilvægt að þingið vinni vel úr þessum upplýsingum, taki fyrir réttu kröfurnar og leysi úr þeim álitamálum sem þær skapa þannig að þegar upp er staðið verði til ný stjórnarskrá sem sannarlega endurspeglar þá heildarmynd sem við stefnum að, þ.e. endurspegli það þjóðfélag sem við viljum búa í.

:)
MD

Opna gögn stjórnsýslunnar

Opin gögn stjórnsýslunnar eru forsenda fyrir því að hægt sé að opna stjórnsýsluna sjálfa. Hafi þeir sem vilja fylgjast með stjórnsýslunni ekki aðgang að gögnum um starfsemi hennar eru þeir alveg vopnlausir.

Þannig er skýlaus krafan um að stjórnsýslan gefi upp gögn um rekstur sinn, bæði áætlanir og efndir, og þá veit þjóðin hvort stjórnsýslan er að gera það sem ætlast er til af henni og efna það. Þá má draga fram tilvik þar sem útkoman er ekki eins og við áttum von á og líka þau sem sýna fram á hvar vel gekk.

Þetta er hlutverk fjórða valdsins í lýðræðissamfélagi. Fjórða valdið á að veita hinum þremur aðhald með því að fylgjast með því hvað er að gerast þar. Fjórða valdið á að fjalla um hin völdin þrjú og “gefa skýrslu” til almennings um hvernig þau standa sig. Fjölmiðlar eiga að fara með þetta vald.

Við getum ekki sagt að á Íslandi sé þetta raunin. Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA) fjallar um að upp á þetta hafi vantað í aðdragandanum að hruninu (sem dæmi í Siðfræðikaflanum, sjá líka ágæta grein í Grapewine). Fjölmiðlar virðast, margir hverjir, halda að blaðamennska felist í að birta hráar fréttatilkynningar. Svo það er ljóst að við höfum ekki haft sterkt fjórða valdið til að veita aðhald. Síðan hrunið varð hafa fjölmiðlar enn frekar dregið saman starfsemi sína og það er varla hægt að ætlast til meira aðhalds frá þeim nú.

Eitt sinn á Thomas Jefferson, þriðji forseti Bandaríkjanna, að hafa sagt:

Were it left to me to decide whether we should have a government without newspapers, or newspapers without a government, I should not hesitate a moment to prefer the latter.

(Snörun: Þyrfti ég að velja hvort við hefðum stjórnvöld með dagblöðum eða dagblöð án stjórnvalda, myndi ég hiklaust kjósa það síðarnefnda.)

Þegar þetta fyrirkomulag milli stjórnvalda og fjölmiðla var skilgreint voru dagblöð (þess tíma fjölmiðlar) þau einu sem höfðu tækifæri til að nálgast upplýsingar, elta uppi og miðla áfram. Þetta hefur breyst. Það er nú á allra færi að sækja og birta upplýsingar. Með veikum fjölmiðlum verður þjóðin að taka sína ábyrgð á fjórða valdinu og til þess þarf hún betri aðgengi að gögnum.

En hún þarf líka viljann. Fyrir hrun mátti heyra marga Íslendinga tala um hvað þeim leiddist pólítík og þeir vildu helst sem minnst af henni vita. Þess vegna kom staðan á þjóðfélaginu við hrun mörgum í opna skjöldu. Síðan þá hefur fólk sýnt raunverulegan vilja til að setja sig inn í málin og taka þátt (eins og fjöldi frambjóðenda á stjórnlagaþing er gott dæmi um!). Ég held því að það sé mikilvægt að halda áfram að virkja almenning í aðhald við stjórnvöld og byggja upp sterkara fjórða vald.

Í skýrslu nefndar Alþingis um viðbrögð við skýrslu RNA var rætt um að skerpa þyrfti upplýsingarétt almennings. Af þessu tilefni hefur verið lagt fyrir Alþingi frumvarp um aukin og endurbætt Upplýsingarlög (50/1996). Í lögunum sjálfum er tilgangur þeirra tilgreindur og rímar hann vel við það sem ég legg áherslu á hér að ofan. Að auki hafa lögin verið útvíkkuð til að taka til fleiri greinar stjórnsýslunnar en áður svo og einkaaðila séu þeir í störfum fyrir opinbera aðila eða í meira en 75% eigu þeirra.

Þetta er mikið fagnaðarefni en mér finnst ekki nógu langt gengið. Frumvarpið er uppfærð útgáfa af upprunalegu lögunum og það takmarkar þau á mikilvægan hátt. Í fyrsta lagi eru lögin skrifuð til að tryggja almenningi rétt á að biðja um upplýsingar. Stór hluti laganna fer í að tilgreina hvernig mál eru lögð fram, afgreiðslutíma, ljósritunarkosntnað (!) og svo framvegis*. Árið 1996 þá var þetta eðilegt málsmeðferð. Árið 2010 er hún að mörgu leyti úreld (20. aldar vinnubrögð á 21. öldinni). Frumvarpið tilgreinir að vísu að stjórnvöldi eigi að leitast við að birta upplýsingar á vefsíðum en þar finnst mér ekki nógu langt gengið. Í athugasemdum er talað um að ekki hafi verið gengið lengra við að leggja skyldur á herðar stjórnsýslunnar vegna þess að það sé tæknilega erfitt og síðan geti verið óheyrilega flókið að skrifa lög sem geti tekið tillit til persónuverndar, þagnarskyldu, þjóðhagslegra hagsmuna o.fl. við gerð almennra laga eins og þetta. Þá komum við að því sem takmarkar þessi lög að öðru lagi.

Lögin fjalla of almennt um ‘gögn’ og því verður krafan um birtingu þeirra ekki og aðgengi nógu skýr. Til að skerpa á þessu mætt t.d. skipta umfjöllun upp eftir því hvort að gögnin eru persónugreinanleg eða ekki. Þá er auðveldara að fjalla um hvað stjórnvöld mega og mega ekki birta og hvernig. Síðan má ræða aðgengi að gögn einstaklings um hann sjálfan og hvernig þau má birta. Eða það mætti jafnvel skoða að skipta lögunum eftir stjórnvaldi (alþingi, forseti, dómstólar, ríkisstjórn/ráðuneyti, ríkisfyrirtæki…) og fjalla sérstaklega um þau. Að lágmarki ætti að setja stjórnvöldum markmið um hvað á að vera birt og hvernig (jafnvel hvenær). Byrja almennt, en setja stefnuna. Ekki setja það undir “mat stjórnvalda” (eins og það er orðað í athugasemdum) hvað á að birta og hvað ekki. Ef tilgangur laganna á að vera að byggja upp traust þá er þetta ekki til þess fallið. Við getum verið miklu kröfuharðari til stjórnvalda hvað þetta varðar. Ef þau taka upp á sína arma meiri upplýsingatækni þá gerir það ekki einungis birtingu auðveldari heldur verður stjórnsýslan sjálf mun skilvirkari og þar af leiðandi ódýrari til lengdar. Mér finnst frumvarpið vera örlítið litað af hræðslu við upplýsingatækni og ekki nógu mikilli þekkingu á því hvað hún er öflug.

En gott skref og í rétta átt. Meira svona. Og að sjálfsögðu ætti að tryggja þennan upplýsingarétt í stjórnarskránni þannig hann megi ekki afmá með einu Alþingi.

:)
MD

*Til dæmis er tilgreint að ef að gögn eru til á tölvutæku formi þá geti sá sem biður um gögnin ráðið því hvort hann vill fá þau á því formi eða útprentuð. Það er bæði dýrt og óhentugt að láta beiðanda eftir þetta frelsi. Hann getur prentað út gögnin á sínum tíma og fyrir sinn kostnað þegar hann hefur fengið þau afhent á tölvutæku formi sem hann getur notað.

Opin stjórnsýsla, opið þjóðfélag

Til að byggja upp traust þá er lykilatriði að allt sé uppi á borðinu. Því verðum við að gera þá kröfu til stjórnsýslunnar að hún sé opin. Þessi krafa hefði verið sligandi fyrir stjórnsýsluna fyrir ekki nema örfáum áratugum síðan en með nútímaupplýsingatækni getur hún uppfyllt þessar kröfur. Eitt fyrsta verk Baracks Obama í embætti forseta Bandaríkjanna var að gefa út sérstakt minnisblað um opna stjórnsýslu og tilnefna Tæknistjóra. Þannig vildi hann leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnsýslan sé opin og fyrir þjóðina. Það er margt sem við getum lært af hans fordæmi.

Það er hægt að opna stjórnsýsluna á marga vegu og hverja þeirra ættum við að velta fyrir okkur í íslensku samhengi.

Það má opna öll gögn sem verða til í opinberum stofnunum.
Þetta á bæði við um gögn sem verða til vegna reksturs stofnananna (t.d. fjárhags- og aðgerðaráætlanir, efnahagsreikninga) en líka gögn sem verða til vegna starfsemi stofnananna (t.d. að allar mælingar Hafrannsóknarstofnunnar verði aðgengilegar).

Það má gera opna ákvarðanatöku þannig að ákvarðanir verði gegnsæjar.
Þetta á við um hvernig og hvar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Ef það er ljóst hvernig ákvörðun er tekin og af hverjum þá er líka ljóst hvar ábyrgð liggur.

Það má opna fyrir aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku.
Stundum eru ákvarðanir þess háttar að þjóðin þarf að koma að þeim til að komast að eins lýðræðislegri niðurstöðu og mögulegt er.

Það má opna fyrir samvinnu milli stjórnvalda og þjóðar.
Þannig getur það verið til mikilla bóta ef að þekking þjóðarinnar er nýtt til að koma að ákvarðanatöku því að oft er of seint að komast að lýðræðislegri niðurstöðu þegar búið er að matreiða tvær svart/hvítar niðurstöður sem að taka á afstöðu til.

Síðan má velta því upp hvort það sé ástæða til að stoppa hér. Af hverju ekki gera kröfu til að fyrirtæki í einkaeigu séu opin líka? Eins og veitingastaðir sem hafa opnað eldhúsin sín þannig að það sem fer þar fram er fyrir allra augliti. Það er ekki bara stjórnsýslan á Íslandi sem þjóðin á erfitt með að treysta.

Endurnýjað umboð til stjórnvalda

Eftir hrunið 2008 brast traustið milli þjóðar og stjórnvalda og er nú vart mælanlegt. Samkvæmt nýlegri könnun bera ekki nema 10,9% þjóðarinnar traust til ríkisstjórnarinnar og 7,5% til hins háa Alþingis.

Í lýðræðisríki sækja stjórnvöld völd sín til þjóðarinnar. Hvernig það er gert er skilgreint í stjórnarskrá. Bandarískja stjórnarskráin byrjar á ‘Við, fólkið‘. Nú er komið að því að ‘Við Íslendingar’ endurnýjum umboð stjórnvalda til valda með því að endurskoða okkar stjórnarskrá. Þess vegna er það svo gríðarlega mikilvægt að stjórnlagaþing 2011 skili af sér verki sem þjóðin getur fylkt sér bakvið. Það er forsenda fyrir því að við getum endurnýjað traust milli þjóðar og stjórnvalda.

Hlutverk stjórnlagaþings er að hlusta á þjóðina og skilja vilja hennar og setja hann fram. Við erum fulltrúar ykkar á þinginu. Þingmenn fá afhenda samantekt úr vinnu þjóðfundar og þar verða línurnar lagðar. Þjóðin á að fá að fylgjast með starfinu frá fyrsta degi, lesa uppköst og hafa færi á að gefa athugasemdir á vinnuna. Þetta er ekki þingið þar sem við ætlum að leysa stór mál eins og aðskilnað ríkis og kirkju, okkar meginverkefni er að endurnýja umboð þjóðarinnar til stjórnvalda. Takist þetta vel má taka fyrir önnur hitamál á sama hátt í beinu framhaldi.

++++
Rétt eftir að ég skrifaði þessar hugleiðingar þá komst aftur í umræðuna það mál sem undirstrikar kannski best mikilvægi þess að skilgreina hvernig mikilvægar ákvarðanir eru teknar og það sé gegnsætt. En það er ákvörðun Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar um að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða fyrir innrás Bandaríkjanna í Írak.