Archive for November 5, 2010

Opin stjórnsýsla, opið þjóðfélag

Til að byggja upp traust þá er lykilatriði að allt sé uppi á borðinu. Því verðum við að gera þá kröfu til stjórnsýslunnar að hún sé opin. Þessi krafa hefði verið sligandi fyrir stjórnsýsluna fyrir ekki nema örfáum áratugum síðan en með nútímaupplýsingatækni getur hún uppfyllt þessar kröfur. Eitt fyrsta verk Baracks Obama í embætti forseta Bandaríkjanna var að gefa út sérstakt minnisblað um opna stjórnsýslu og tilnefna Tæknistjóra. Þannig vildi hann leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnsýslan sé opin og fyrir þjóðina. Það er margt sem við getum lært af hans fordæmi.

Það er hægt að opna stjórnsýsluna á marga vegu og hverja þeirra ættum við að velta fyrir okkur í íslensku samhengi.

Það má opna öll gögn sem verða til í opinberum stofnunum.
Þetta á bæði við um gögn sem verða til vegna reksturs stofnananna (t.d. fjárhags- og aðgerðaráætlanir, efnahagsreikninga) en líka gögn sem verða til vegna starfsemi stofnananna (t.d. að allar mælingar Hafrannsóknarstofnunnar verði aðgengilegar).

Það má gera opna ákvarðanatöku þannig að ákvarðanir verði gegnsæjar.
Þetta á við um hvernig og hvar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Ef það er ljóst hvernig ákvörðun er tekin og af hverjum þá er líka ljóst hvar ábyrgð liggur.

Það má opna fyrir aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku.
Stundum eru ákvarðanir þess háttar að þjóðin þarf að koma að þeim til að komast að eins lýðræðislegri niðurstöðu og mögulegt er.

Það má opna fyrir samvinnu milli stjórnvalda og þjóðar.
Þannig getur það verið til mikilla bóta ef að þekking þjóðarinnar er nýtt til að koma að ákvarðanatöku því að oft er of seint að komast að lýðræðislegri niðurstöðu þegar búið er að matreiða tvær svart/hvítar niðurstöður sem að taka á afstöðu til.

Síðan má velta því upp hvort það sé ástæða til að stoppa hér. Af hverju ekki gera kröfu til að fyrirtæki í einkaeigu séu opin líka? Eins og veitingastaðir sem hafa opnað eldhúsin sín þannig að það sem fer þar fram er fyrir allra augliti. Það er ekki bara stjórnsýslan á Íslandi sem þjóðin á erfitt með að treysta.